Undirbúningur
Málað er einu sinni í viku eða á miðvikudögum. Þann daginn undirbýr leikskólakennarinn fyrst borðin á meðan börnin leika. Oft aðstoða viljug börn við að setja vatnskrukkurnar á borðið, raða litlu glerglösunum ofan í tréstandana og ná í málingarplöturnar. Þegar allt er tilbúið, og frjálsu leikstundinni lokið, koma börnin og fá málingarsvuntuna sína og setjast.
Regnbogafuglinn
Málunarstundin hefst á örsögu um regnbogafuglinn. Hann er afar stór fugl sem á heima í krónu risastórs trés, sem nær með rætur sínar djúpt ofan í jörðina og teygir greinar sínar alla leið inn í himininn. Þegar regnbogafuglinn vaknar á morgnanna er hann alltaf skjannahvítur. Hann lendir í stuttum ævintýrum og þegar hann fer heim er hann alltaf orðinn öðruvísi á litinn.
Regnboga kvæði
Þegar sagan er búin setja börnin hendur fyrir aftan bak, loka augunum og við syngjum: „Regnbogi, regnbogi kom til mín. Ljá mér liti þína, nú í hendi mína, gula, rauða, bláa, græna, þína litaveröld væna“.
Upplifun
Þegar pensilinn lendir í hönd barnsins er byrjað að mála. Við málum blautt í blautt. Pappírinn er rakur og börnin fá einn til þrjá liti til að mála með. Notaðir eru breiðir penslar. Erfitt er að stýra vatnslitum, þeir renna þangað sem þeir vilja með þessari aðferð. Svo áherslan er á upplifun litanna, blöndunina, flæðið og sköpunarkrafta barnanna; engin verkefni eru gefin. Áhersla er á rólegt andrúmsloft, við hvílum munninn og litirnir fá að tala. Það myndast mikil andaktur í málunarstundum. Þögn, einbeiting og innlifun ríkir á meðan allir mála í ró.