Dagleg verkefni
Í leikskólanum taka börnin oft þátt í hversdagslegum hagnýtum störfum. Leikskólakennarinn útfærir eitt og annað sem er nauðsynlegt daglegu lífi leikskólans, t.d. að búa til leikföng og nytjahluti, vökva blóm, hlúa að leikföngum, vinna í garðinum, útbúa mat, leggja á borð og þess háttar.
Hagnýt þekking
Með því að hafa góða fyrirmynd tileinka börnin sér þessi störf og tengjast umheiminum. Börnin tileinka sér hagnýta þekkingu og reynslu sem er grunnurinn að því að manneskjan nái að höndla sína daglegu tilveru sem fullorðinn einstaklingur.
Hágæða efniviður
Börnin upplifa og skilja snemma nauðsyn þess að hlúa að umhverfinu. Í allri vinnu á Yl er lögð áhersla á hágæða efnivið sem höfðar til allra skilningarvita barnsins, jafnframt að áhöld og verkfæri séu nothæf.
Vinnuferli
Í leikskólanum fá börnin tækifæri til að fylgjast með vinnuferli frá undirbúningi til afurðar. Þessar hversdagslegu athafnir verða einnig sameiginlegar upplifanir barnanna og uppspretta fyrir leikinn. Börnin fá hagnýta kunnáttu og venjast því að meðhöndla mismunandi efni. Svo dæmi sé tekið strokkum við smjör fyrir hausthátíðina okkar, bökum haustbrauð og klárum að taka síðasta grænmetið úr garðinum okkar
Dundað
Ýmislegt er dundað við á Yl. Oft eru fimmtudagarnir teknir undir dundur ýmiskonar en það getur líka teygt sig yfir á aðra daga, t.d. verkefni fyrir hátíðar. Þegar gerðir eru bolluvendir fyrir bolludaginn t.d. er hægt að setjast niður og föndra nokkra daga í röð, því gera þarf marga dúska fyrir hvern vönd.
Fjölbreytni
Sem dæmi um verkefni þá fá öll börnin að prófa að sauma, t.d. stjörnur í jólakúluna sem þau þæfa sjálf fyrir jólin. Þæfivinna er algeng, perlusaumur, laufþrykk, bývaxmótun, jurtaþurrkun fyrir te o.m.fl. Börnin sá, bæði í garðinn sinn svo og inni í potta, grafa lauka í jörð, búa til luktir fyrir luktarhátíðina, föndra héra, fuglsunga eða kanínu fyrir páskana, útbúa fuglamat fyrir smáfuglana að vetrum o.m.fl.
Flóknari verkefni
Árstíðirnar, vikudagarnir og hátíðirnar hafa áhrif á verkefnin hverju sinni. Elstu börn leikskólans fá gjarnan flóknari verkefni en þau yngri, eins og t.d. að puttaprjóna og tálga.
Þrif
Þrif eru einnig verkefni sem börnin fá að taka þátt í. Föstudagar eru gjarnan notaðir í þrifin. Kannski eru gluggarnir þvegnir og pússaðir. Kannski snúum við borðunum við og þrífum undir þeim, og skrúbbum þau vel. Tökum málingaplöturnar okkar út í snjóinn og þvoum þær með sápuvatni og burstum.