Á þriðjudögum er bakað. Oftast brauð með súpunni, sem alltaf er í matinn á þriðjudögum, en stöku sinnum eitthvað góðgæti til að hafa í bitanum. Eins er bakað fyrir einstaka hátíðir.
Hrært er í deig um morguninn sem fær svo að „sofa“ aðeins þar til tími er til kominn að baka. Bakað er á meðan frjálsi leikurinn stendur yfir. Þeir sem vilja fara að þvo hendurnar, fá svuntu og svo er sest að störfum.
Við rúllum bollur og finnum ilminn af súpunni á meðan. Oft er sungið við baksturinn. Þegar börnin vilja ekki baka meir, eða deigið er búið er farið að þvo hendur. Eins koma börnin gjarnan og hjálpa við að sópa hveitinu af borðinu og svo skrúbba það. Önnur hlaupa strax í leikinn.