Lífrænt
Matargerð er einn af grunnþáttum daglegs lífs og hefur mikið uppeldislegt gildi. Börn og starfsfólk á Yl fá í hádeginu lífrænan grænmetismat eldaðan á staðnum. Komið er á móts við allar þarfir barnanna en hér erum við með nokkur vegan börn, sum eru mjólkurlaus og önnur glútenlaus. Við höfum einstaklega menntaðarfulla kokka og njótum góðs af því.
Tengsl við náttúruna
Við viljum að börnin fái tækifæri til að fylgjast með og taka þátt í undirbúningi máltíða, leggja á borð, finna matarilminn og sjá matinn fallega borin fram. Aðalmáltíðin hefst með borðbæn, þar sem við þökkum móður jörð og kæru sól fyrir matinn. Styrkjum við þannig tengsl barnsins við náttúruna. Skapa þarf þær aðstæður að kyrrð ríki við matarborðið. Yfir haust og vetrarmánuðina eru seríur notaðar til að skapa stemningu og yfir vor og sumarmánuðina eru borðin skreytt fallegum blómum.
Góðir borðsiðir
Leikskólakennarinn borðar með börnunum. Sem fyrirmynd barnanna leggur hann grunn að góðum borðsiðum og venjum. Hverri máltíð er lokið saman. Mikilvægt er að barnið upplifi tengsl milli þess að yrkja jörðina, hráefnisins, matarins og að metta magann. Farið er með börnin í berjamó og berin sultuð og svo notuð í matargerðina, einnig eru jurtir tíndar og notaðar í hin ýmsu te, litun á ull og fl.
Grænmetisgarðurinn
Ylur er með sinn eigin grænmetisgarð sem við sinnum allt árið. Á vorin förum við og sáum í garðinn, priklum og setjum niður. Yfir sumartímann koma börnin með foreldrum sínum einu sinni til tvisvar í garðinn til að vökva hann og reita arfa. Við njótum uppskerunnar ríkulega á haustin og höfum við oft grænmeti í síðdegisbitanum okkar í stað brauðs á haustin. Eftir uppskeru er settur skítur í öll beðin. Eru börnin alltaf með í þessari vinnu, eða leikandi í kringum vinnandi starfsfólkið – allt eftir aldri og áhugasviði.