Næði til að teikna
Myndsköpun á sinn sess í deginum. Eftir að búið er að taka til eftir frjálsa leikinn er hvíldarstund við borðin á meðan matarvagninn er sóttur og börnin fá næði til að sitja og teikna.
Sköpunarferli
Teikning gefur barninu mikla möguleika til ómeðvitaðrar sjálfstjáningar. Persónuleiki hvers barns skín gjarnan af teikningum þeirra. Myndsköpun á það sameiginlegt með leik barnsins að það er sköpunarferlið sjálft sem skiptir máli. Í leikskólanum nota börnin vaxliti í fallegum litum, svarti liturinn er undanskilinn. Vaxlitirnir eru í kubbaformi og henta litlum höndum einstaklega vel. Til að geta beitt þeim þurfa börnin að nota rétt grip sem þau ómeðvitað tileinka sér. Stór blöð kalla á frjálsar hreyfingar og sköpun.
Vinnuferlið
Yngri börnin eru gjarnan býsna fljót að teikna mynd en það krefst þó mikils innri styrkleika og einbeitingar. Það er mikil hreyfing í myndum þeirra. Þau sitja ýmist niðursokkin, eða horfa á eldri börnin vinna án þess sjálf að teikna. Eldri börnin setja sér oft markmið og ákveða hvað þau ætla að teikna, þó svo að myndin breytist oft í vinnuferlinu. Stundum sitja þau niðursokkin í eigið verkefni, stundum skoða þau verk hinna, ræða, herma og spjalla. Þau segja gjarnan frá á meðan þau teikna og teikningin er stöðugt í sköpunarferli.