Morgunhringur

Lítill morgunhringur

Þar sem við erum svo heppin að koma öll á sama tíma gefst okkur tækifæri til að byrja daginn saman í litlum morgunhring. Við setjumst á hlýja teppið okkar í kringum litla trédrumbinn í miðjunni. Á honum er kertið okkar auk einhvers hlutar sem minnir á árstíðina sem ríkir eða á hátíðina sem nálgast. Það getur verið lítill steinn, trédýr, engill eða annað.

Þula og fingraleikur

Fyrst er kveikt á kertinu og því næst er morgunlagið okkar sungið með öllum nöfnum barna og fullorðinna. Næst kemur þula og fingraleikur dagsins, svo lögin og að lokum hringleikirnir. Þá höfum við fært drumbinn frá því hringleikirnir eru oft saga sem er sungin og leikin. Þá er lítið leikrit í gangi í miðjunni á meðan við hin leiðumst syngjandi í kringum „aðalleikarana“. Oft eru einfaldir búningar eins og húfa eða svunta notaðir í leiknum.

Söngvastundin

Öll söngvastundin örvar hreyfingar barnsins. Fyrst eru það fínhreyfingarnar sem fylgja fingraleiknum og þulunni, lögin búa oft yfir aðeins stærri hreyfingum og hringleikirnir bjóða að lokum upp á mjög stórar hreyfingar.

Undirbúningur kennarans

Kennarinn sem stjórnar söngvaleiknum hefur lært lögin utan að og miðlar laginu á skýran hátt og lifandi hátt. Oft eru lögin líka tengd saman með lítilli sögu sem kennarinn spinnur. Þessi undirbúningur sem kennarinn hefur lagt á sig fyrir þessa stund skilar sér margfalt til baka í þátttökugleði barnanna sem upplifa stundina skýrt og milliliðalaust auk þess sem málþroski þeirra, orðaforði og tilfinning fyrir hrynjanda og rími örvast mjög.

Sönggleði

Það þjálfar einnig einbeitinguna og félagsþroskann að vera í saman í hringleik með öllum hinum, að þora að vera miðpunkturinn í leiknum eða að vera sá sem ekki hefur aðalhlutverkið. Börnin fá útrás fyrir sönggleði sína og hreyfiþörf ásamt því að innihald textanna segir börnunum ýmislegt um árstíðina, lífið, land okkar og sögu. Lesa má meira um hlutverk söngsins í ársskýrslu leikskólans.