Frjáls leikur

Leikurinn

Leikurinn er leið barnsins að tengjast veröldinni. Waldorfleikskólakennarinn hefur þá sýn á manneskjuna að hún sé alla ævina að mótast og þroskast, það er hin eðlilega leið. Börnin eru að mótast, að verða. Í umhverfi sínu þarfnast barnið hluta sem eru í sama ferli, hluta sem eru að verða, að mótast, sem hafa þann möguleika að breytast og verða eitthvað annað. Hluta sem eru úr náttúrulegum efnivið og reyna á skynfæri barnsins. Viðarbútur getur t.d. verið fyrir barninu straujárn, barnið leggur klæði á borð og undirbýr það að strauja og hefst handa. Í miðjum leik fær viðarbúturinn nýtt hlutverk og breytist í lest sem skríður upp eftir lestarteinunum, bátur sem siglir upp ána eða sími sem barnið talar í.

Leikföng

Leikföng sem styðja við og hvetja til leiks á þennan máta styrkja best ímyndunarafl barnsins og þróast í þá hæfileika og færni sem barnið þarfnast seinna í lífinu. Í svona leik getur barnið skoðað frjálst og komist í kynni við heiminn með því að vera virkt. Í miklum mæli sameinar barnið sig heiminum og verður þannig fullt sjálfstrausts og öðlast sterka öryggiskennd. Leikur barnanna þarf mikið athafnarými, aðstöðu til að geta byggt sér hús, báta, flugvélar, m.ö.o. allt sem þeim hugnast.

Félagsþroski

Dæmi um þá færni sem barnið tileinkar sér í gegnum frjálsa leikinn er t.d. fín- og grófhreyfingar, líkamsmeðvitund, málþroski, skapandi hugsun og ímyndunarafl. En ekki síst félagsþroski. Því börnin mætast í leiknum og læra að leysa úr vandamálum saman, með aðstoð hins fullorðna sé þess þörf. Þrautsegja og úthald lærist líka í leik þar sem virknin kemur frá barninu sjálfu. Hér má t.d. alveg láta sér leiðast komi andleysið yfir, eins og gerist hjá öllum af og til.

Virk þátttaka foreldra

Waldorfleikskólakennari verður að sjá til þess að hinn sjálfsprottni leikur sé þungamiðja dagsins. Að uppbygging dagsins gefi nægan samfelldan tíma fyrir frjálsan leik og að hvert barn sé þátttakandi út frá sínum eigin forsendum.

Virk þátttaka foreldra

Frjálsi leikurinn hefur því mikið gildi hér hjá okkur á Yl. Við erum vel í sveit sett hér á Lækjarbotnum og hafa börnin gott tækifæri til að leika sér úti við í náttúrunni. Fyrir utan hin hefðbundu leiktæki höfum við fjöll sem hægt er að klífa, hænur sem þarf að sinna, garð sem þarf að reyta og uppskera úr og frið til að sitja úti í náttúrunni með skynfærin opin og velta því fyrir sér í rólegheitunum hvað mann langar til að gera.  Lögð er áhersla á bæði inni- og útiveru á Yl þar sem hvorutveggja eru mikilvægt í þroska barnsins.