Rytmískar verur
Öll erum við rytmískar verur. Við finnum kannski ekki mikið fyrir því í hvunndeginum en við værum ekki hér ef við hættum að anda reglubundið inn og út og ef hjartað hætti að slá. Við búum líka í heimi sem hefur ákveðinn hrynjanda. Dagur og nótt, flóð og fjara, vetur, sumar, vor og haust.
Hrynjandi
Í leikskólanum ríkir líka hrynjandi, líkt og í okkar ytri og innri veröld. Hér er fastur dagshrynjandi, vikuhrynjandi og árshrynjandi, Sem dæmi um dagshrynjanda má nefna að við byrjum alltaf á morgunhring um leið og við komum. Sögur, söngvar, þulur, hringleikir og aðrir skipulagðir leikir sem eru fastir liðir í dagsskipulaginu endurtaka sig í lengri tíma. Endurtekningin vekur gleði, öryggi og tilfinningu fyrir þátttöku.
Stöðugleiki
Svo barnið komist í ró, sem er skilyrði fyrir leiknum, þarf það að finna sig öruggt gagnvart hinum fullorðnu, hinum börnunum, umhverfinu og því sem á sér stað í návist þess. Er því mikil áhersla lögð á stöðugleika, börnin mæta á sama tíma á degi hverjum og ljúka deginum á sama tíma. Sömu leikskólakennararnir eru með barninu allan daginn.
Öryggi
Sem dæmi um vikuhrynjanda þá bökum við á þriðjudögum og málum á miðvikudögum. Dæmi um árskipulag eru hátíðirnar okkar, t.d. er alltaf haldið upp á Marteinsmessu með luktarhátíð í nóvember. Barnið finnur sig í hrynjandanum en hann skapar öryggi fyrir það og eftirvæntingargleði í huga þess.