Afmæli barnsins

Afmælisævintýri

Varla er nokkur dagur eins merkilegur í huga barns og afmælisdagur þess. Leitast er við að hafa þennan dag eins eftirminnilegan og hátíðlegan og hægt er. Útbúið er sérstakt afmælissvæði, regnbogasilki er breitt út á búkka bak við svæðið, barnið sest á fallega pullu og á borðinu fyrir framan það er „gull“ platti með jafnmörgum kertum og aldur barnsins segir til um. Barnið fær að heyra afmælisævintýrið sitt.

 

Ævintýrið er alltaf byggt á sama grunni en hefur mismunandi áherslur þar sem gengið er út frá þeim einstakling sem nú á afmæli. Fyrst af öllu fær barnið gullkórónuna sína, en ekki fyrr en búið er að telja toppana á henni sem eiga að vera jafnmargir og árin. Barnið fer svo í afmælisskikkjuna og afmælissagan byrjar.

Gjöfin

Starfsfólk útbýr gjöf handa barninu. Ýmist er prjónuð dúkka, dýr eða keyptur fallegur steinn, allt eftir aldri barnsins. Þessa gjöf fær barnið við hátíðlega athöfn þegar sögunni lýkur. Þá má afmælisbarnið lyfta lituðum slæðum af gjöfinni á meðan við teljum árin og opna svo gjöfina sína. Gjöfin fer svo hringinn þar sem allir fá að skoða hana.

Töfrakertið

Barnið fær líka afmæliskerti, sem er töfrakerti. Því er haldið aðeins fyrir ofan logann á kertinu á borðinu og fylgst með hvernig kviknar allt í einu á því eins og fyrir töfra. Töfrakertið gengur líka hringinn og allir fá að halda á því og senda afmælisbarninu eina ósk. Þegar kertið er komið hringinn blæs afmælisbarnið á það og allar óskirnar fara upp með reiknum.

Afmælissöngur

Í framhaldi er afmælissöngurinn sunginn; „Lífið allt þér gangi í hag, þú sem átt afmæli í dag. Þetta er þitt lag.” Boðið er upp á afmælisköku eða aðrar veitingar sem afmælisbarnið kemur með að heiman. Þennan dag er barnið í hávegum haft í leikskólanum sínum.