Góð tengsl
Við á Yl viljum vera í mjög góðum tengslum við foreldra barnanna. Þó börnin komi til okkar með rútu á morgnana, án foreldra eru samskipti við foreldra náin. Það má nefna að vinnuhelgarnar, foreldraþrifin og basarundirbúninginn sé sterk tenging foreldra og starfsfólks. Fyrir utan það erum við með foreldrafundi þar sem allir foreldrar eru samankomnir, foreldraviðtöl eru haldin einu sinni á önn (hálftími í senn) og eins bjóða hátíðir upp á góða samveru. Aðalmarkmið foreldrasamstarfsins á Yl er að foreldrar séu öruggir, virkir, ánægðir og upplýstir.
Helgarþrif
Hver fjölskylda sér um þrif á leikskólanum að meðaltali tvær helgar á önn. Er þetta hugsað sem þáttur í að efla tengsl leikskóla og heimilis, því það gerist eitthvað við að allir, foreldrar, börn og starfsfólk, beri leikskólann saman á þennan hátt. Heimar barnsins tengjast saman og börnin njóta þess að koma ein í leikskólann með foreldrum sínum og sýna þeim hann.
Vinnudagar
Tvo daga á ári hittast allir, foreldrar, börn og starfsfólk, þegar leikskólinn og skólinn eru með sameiginlegan vinnudag í Lækjarbotnum. Dagarnir eru nýttir til að dytta að húsinu og nánasta umhverfi. Það er hluti af okkar uppeldisfræði að gefa börnunum tækifæri til að sjá og vera með fullorðnu fólki sem er að fást við hin ýmsu verk en einnig hjálpar börnunum að tengjast umhverfinu og bera virðingu fyrir því.
Basarundirbúningur
Við leggjum mikla vinnu og sömuleiðis er mikill undirbúningur sem liggur að baki jólabasarsins sem er haldinn árlega um miðjan nóvember. Komið er upp basarundirbúningsnefnd sem samanstendur af foreldrum og starfsfólki. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja basarinn. Haldnir eru basarundirbúningsdagar um helgar þar sem börn, starfsfólk og foreldrar framleiða hluti fyrir basarinn. Einnig eru haldin basarundirbúningskvöld fyrir starfsfólk og alla Lækjarbotna foreldra.
Sjálfa basarhelgina leggjast allir á eitt; húsnæði leikskólans og skólans er breytt í kaffihús og handverksmarkað og þar eru uppákomur og skemmtanir fyrir börnin. Þetta er dagur sem börnin bíða eftir með mikilli eftirvæntingu. Leikskólinn hefur tekið að sér að halda utan um tvö kertakvöld fyrir basarinn. Þá hafa foreldrar leikskólans mætt og bæði dýft og steypt kerti fyrir basarinn.