Waldorfuppeldisfræðin

Mannspeki Rudolfs Steiners

Leikskólinn byggir á mannspeki Rudolfs Steiners en í henni felst heildstæð sýn á manneskjuna. Manneskjan er ekki einungis líkamleg heldur einnig sálræn og andleg vera. Út frá þeirri heildarsýn leitast leikskólakennarinn við að skapa barninu sem best skilyrði til þess að hin seinna verðandi fullorðna manneskja geti tekist á við framtíðarhlutverk samtímans af dugnaði, kjarki, sjálfstæði og áhuga.

Markmiðið

Markmiðið er að við allar áskoranir lífsins geti hin verðandi fullorðna manneskja notað vitsmuni sína og áhuga, siðferðisþroska og fegurðarskyn og geti þar að auki komið hugmyndum sínum út í lífið; framkvæmt. Þetta þrennt: hugsun, tilfinning og vilji þarf allt að virka í manneskjunni. Á sama hátt grundvallast öll sú vinna sem fram fer með börnunum í leikskólanum út frá þeirri heildarsýn að hver athöfn er hluti af stærri heild.

Þroski barnsins

Rudolf Steiner líkir þroska manneskjunnar við vöxt jurtanna og segir: Lífið í heild sinni líkist jurt sem býr ekki einvörðungu yfir því sem augað nemur heldur geymir einnig í leyndum djúpum sína eigin framtíð. Hér líkir Steiner starfi uppalandans við starf garðyrkjumannsins sem undirbýr jarðveginn, hlúir að plöntunni og sérkennum hennar svo hún beri ríkulegan ávöxt. Þessi líkingarmynd er lýsandi fyrir það hvernig waldorfleikskólakennaranum ber að vinna. Hann er meðvitaður um hve þýðingarmiklu hlutverki hann hefur að gegna í þroska barnsins.